Settu hendurnar í vasann og fáðu yfirsýnina


Settu hendurnar í vasann og fáðu yfirsýnina

Um fyrirlestur
12/10/2024 11:00 - 11:45
Kaldalón

Á Íslandi búum við svo vel að eiga fólk sem sérhæfir sig í björgun þegar áföll dynja yfir, eins og náttúruhamfarir, slys eða eldsvoði, svokallaðir viðbragðsaðilar sem bregðast við þegar áföll dynja yfir. Fyrri rannsóknir benda til að við björgunaraðgerðir skipti samhæfing ólíkra viðbragðsaðila miklu máli og að leiðtogar björgunaraðgerða þurfi að forðast miðstýringu. Fyrri rannsóknir benda til að þjónandi forysta sé árangursrík leið í stjórnun en fáar rannsóknir liggja fyrir um stjórnun aðgerða í því ljósi og fáar rannsóknir hafa verið gerðar um reynslu breiðs hóps viðbragðsaðila af stjórnun mismunandi aðgerða og mikilvægt að kanna hver reynsla vettvangsstjóra er af slíkri stjórnun. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á áherslur reynslumikilla vettvangsstjórnenda við stjórnun á vettvangi aðgerða og leita svara við eftirfarandi rannsóknarspurningum. Hver er reynsla vettvangsstjóra og áherslur þeirra í stjórnun á vettvangi í aðgerðum? Endurspegla þær áherslur hugmyndafræði þjónandi forystu? Gerð var eigindleg rannsókn með viðtölum við ellefu vettvangsstjórnendur, notuð var þemagreining og sett fram þrjú yfirþemu og níu undirþemu. Niðurstöður benda til þess að vettvangsstjórnendur leggi áherslu á samvinnu ólíkra viðbragðsaðila sem þeir ná fram með valdeflingu, hlustun og yfirsýn. Niðurstöður benda einnig til þess að áherslur vettvangsstjóranna séu í takt við lykilþætti þjónandi forystu, það er framsýni, hlustun, valdeflingu, jafningjabrag, innri styrk og samvinnu. Niðurstöður rannsóknarinnar geta verið framlag til þekkingar um árangursríkar áherslur í stjórnun björgunaraðgerða og geta nýst meðal viðbragðsaðila sem og fyrir aðra sem takast á við áföll. Niðurstöður geta einnig haft hagnýtt gildi fyrir forystu og stjórnun almennt.