Einar Magnús Magnússon


Einar Magnús Magnússon

Einar Magnús starfar sem sérfræðingur í auglýsingum og kynningu hjá Samgöngustofu. Mestan hluta ævi sinnar hefur hann þó unnið við kvikmyndagerð og ljósmyndun. Hann hefur leikstýrt fjölda sjónvarpsmynda og heimildamynda og unnið sem handritshöfundur. Auk þess hefur hann annast neðansjávarmyndatöku fyrir fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Hann var kafari í sjóbjörgunardeild Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði.

12 október 2024 16:00 - 16:45
Ríma

Beyond the Moon byggir á atburðum sem áttu sér stað í janúar 1903 þegar tólf þýskir fiskimenn urðu skipreka undan afskekktri suðurströnd Íslands. Í ellefu daga leituðu mennirnir skjóls og björgunar á svörtum eyðimerkursandi sem var umkringdur ófærum jöklum, jökulám og kviksandi sem gat gleypt bæði menn og dýr. Tveir þeirra létust og einn hvarf. Að lokum, þegar öll von virtist úti, fundu hinir níu skjól á afskekktum íslenskum bóndabæ. Fimm þeirra voru með lífshættuleg kalsár og voru aflimaðir á borðstofuborðinu á bænum.

Einar Magnús hefur í mörg ár unnið að rannsóknum á þessari sögu og atburðum henni tengdri, bæði á Íslandi, Hollandi og Þýskalandi. Árið 2018 fann hann æviminningar sem Georg Büschen skipstjóri hafði skráð þar sem sagt er frá þessu skipbroti við Íslandsstrendur. Minningar Georgs veita dýrmæta innsýn í atburði sem teljast meðal helstu afreka mannkynssögunnar. Þær lýsa mögnuðu áræði og björgunarviðleitni þessara manna frammi fyrir hrikalegum aðstæðum. Auk þess segja æviminningarnar sögu hetjudáða sem sveitafólk og læknar á Íslandi drýgðu.