Hvað vitum við um áhrif yfirstandandi loftslagsbreytinga á stöðugleika jarðvegs í halla á Íslandi?


Hvað vitum við um áhrif yfirstandandi loftslagsbreytinga á stöðugleika jarðvegs í halla á Íslandi?

Um fyrirlestur
12/10/2024 10:00 - 10:45
Silfurberg B

Hreyfingar jarðvegs í halla eru undir miklum áhrifum frá loftslagi og loftslagsbreytingum, t.d. breytingum á úrkomu (mynstri og magni úrkomu) og hitabreytingum, sem geta t.d. haft áhrif á vöxt eða hörfun jökla og sífrera.
Á síðustu áratugum hafa breytingar á veðurfari haft áhrif á stöðugleika jarðvegs í halla um allan heim. Þessar breytingar vekja mikla athygli og áhyggjur á mörgum fjalllendissvæðum, ekki síst vegna aukinna líkinda á jarðefnaskriði. Ísland er þar engin undantekning en eins og í mörgum öðrum löndum er enn ekki nógu mikið vitað um þessar breytingar. Þar af leiðandi þarf að efla rannsóknir og vöktun á þessu sviði, til að öðlast aukna þekkingu og skilning á þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Á síðustu áratugum hafa komið upp nokkur tilvik um óvenjulegt jarðefnaskrið á Íslandi. Þessir atburðir hafa verið óvenjulegir vegna umfangs þeirra, aukinnar tíðni, kveikjuþátta og ekki hvað síst árstímans þegar þeir áttu sér stað. Ein af sýnilegustu afleiðingum hækkaðs hitastigs á Íslandi er hröð hörfun og þynning skriðjökla og myndun jökullóna. Tíðni jarðefnaskriðs nálægt hörfandi skriðjöklum hefur aukist frá síðustu aldamótum, borið saman við síðustu fjóra áratugi 20. aldarinnar. Einnig hafa greinst fleiri tilvik um óstöðugleika jarðvegs í halla yfir skriðjöklum og jökullónum frá árinu 2000. Svipaðar umhverfisbreytingar áttu sér stað á síðasta hörfunartímabili jökla og skömmu eftir það, en þá urðu gífurleg umhverfisáhrif, m.a. vegna jarðefnaskriðs. Aðrar afleiðingar eru duldari og því erfiðara að greina þær og vakta. Ýmis tilvik um jarðefnaskrið sem hafa átt sér stað á síðasta áratug á miðhluta norður- og norðvesturhluta Íslands, er hægt að tengja beint við þiðnun sífrera í fjöllum, en þekking okkar á útbreiðslu sífrera í fjöllum á Íslandi er enn mjög takmörkuð.
Hætta á meiriháttar landmótandi atburðum á þessum svæðum, sem bæði geta laðað að aukinn fjölda ferðamanna allt árið um kring og kallað á tengdar breytingar á innviðum, eins og nýleg dæmi sanna, hafa vakið alvarlegar áhyggjur og sýnt fram á brýna þörf á að rannsaka og fylgjast með þessu jökla- og fjallaumhverfi í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga.